top of page

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra skrifaði þann 10. janúar 2023 undir tillögu um friðlýsingu fólkvangs í Urriðakotshrauni í Garðabæ. Tillagan að friðlýsingunni er frá Garðabæ og landeigandanum, sem er Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowreglunnar. Þetta er í fyrsta skipti sem fólkvangur er friðlýstur í einkalandi.



Undirritun friðlýsingarinnar í Garðabæ 10. janúar 2023. Frá vinstri Oddfellowarnir Steindór Gunnlaugsson, Ólöf S. Pálsdóttir og Hlöðver Kjartansson, Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra, Oddfellowarnir Heiðar Friðjónsson, Ingjaldur Ásvaldsson og Júlíus Rafnsson, Almar Guðmundsson bæjarstjóri og Björg Fenger bæjarfulltrúi.

Deiliskipulag svæðisins var samþykkt í júlí 2023 og er þetta jafnframt í fyrsta skipti sem unnið er að deiliskipulagi samhliða friðlýsingu. Deiliskipulagið tryggir sameiginlega sýn Garðabæjar, Umhverfisstofnunar og Styrktar- og líknarsjóðs um farsæla þróun og uppbyggingu á svæðinu.


Urriðakotshraun liggur á milli Vífilstaðahlíðar og Urriðavallar. Markmið stofnunar fólkvangsins er að festa Urriðakotshraun og nánasta umhverfi þess í Urriðvatnsdölum í sessi sem aðlaðandi útivistarsvæði, með öflugu stígakerfi og aðstöðu til golfiðkunar samhliða vernd einstakrar náttúru, menningarminja og landslags. Friðlýsingin og fyrirhuguð stækkun Urriðavallar er í samræmi við náttúruverndarlög, sem heimila friðlýsingu landsvæða til útivistar og almenningsnota sem fólkvang. Þekktasta dæmi þess er skíðasvæðið í fólkvanginum í Bláfjöllum.


Eitt höfuðmarkmið Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa er að vinna að aukinni lýðheilsu meðal landsmanna. Því fellur það vel að markmiðum landeiganda að afhenda endurgjaldslaust hundruð hektara lands í jaðri höfuðborgarsvæðisins til útivistar öllum almenningi. Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowa leggur fram land til friðlýsingar. Sjóðurinn á hluta af landi Selgjár, sem var ásamt Búrfelli og Búrfellsgjá friðlýst sem náttúruvætti í júní 2020 og kom árið 2014 að friðlýsingu Vífilstaðahrauns og Maríuhella.

Garðabær stóð að forkynning tillögu að deiliskipulagi útivistarsvæðis í Urriðakotstölum á íbúafundi 6. apríl. Fundurinn var vel sóttur og einnig sendur beint út á Facebook. Hægt er að horfa á upptökuna með því að smella á hlekk hér fyrir neðan.



Áform landeigandans, Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowreglunnar, snúast um friðlýsingu Urriðakotshrauns sem fólkvangs og stækkun Urriðavallar meðal annars með lagning golfbrauta í gróðurdæld í Urriðakotshrauni.


Á íbúafundinum fjallaði Ingibjörg Marta Bjarnadóttir sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun um fyrirkomulag friðlýsingarinnar og þau skilyrði sem fylgja henni. Þá sagði Steindór Gunnlaugsson, formaður Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowreglunnar frá aðkomu sjóðsins og að lokum kynnti Edwin Roald golfvallahönnuður þær hugmyndir sem fyrir liggja um framkvæmdina.


Um forkynningu á tillögu að deiliskipulagi er að ræða og hafa íbúar í Garðabæ frest til 25. apríl til að koma með athugasemdir og ábendingar. Þær skal senda á netfangið skipulag@gardabaer.is.


Á vef Garðabæjar má finna nánari upplýsingar um skipulagsáformin, svo og hlekki á tillögu að deiliskipulagsuppdrætti og greinargerð deiliskipulags.


Hlekkur á upptöku af íbúafundi Garðabæjar 6. apríl 2022


Hlekkur á upplýsingar um skipulagstillöguna sem er til kynningar


27. október 2020 - Garðabær birti auglýsingu um skipulags- og matslýsingu fyrir deiliskipulag Urriðavatnsdala þann 26. október 2020. Lýsingin liggur frammi á bæjarskrifstofu Garðabæjar, Garðatorgi 7, frá 27. október til og með 9. nóvember 2020. Einnig er hún aðgengileg á vef Garðabæjar, www.gardabaer.is. Þeim sem telja sig eiga hagsmuni að gæta er gefinn kostur á að senda inn skriflegar ábendingar. Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Garðabæjar https://www.gardabaer.is/umhverfi/skipulag/skipulag-i-kynningu/ Skila skal ábendingum á bæjarskrifstofu Garðabæjar eða á netfangið skipulag@gardabaer.is


1
2
bottom of page