top of page
Search

Fólkvangur friðlýstur í Urriðakotshrauni

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra skrifaði þann 10. janúar 2023 undir tillögu um friðlýsingu fólkvangs í Urriðakotshrauni í Garðabæ. Tillagan að friðlýsingunni er frá Garðabæ og landeigandanum, sem er Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowreglunnar. Þetta er í fyrsta skipti sem fólkvangur er friðlýstur í einkalandi.



Undirritun friðlýsingarinnar í Garðabæ 10. janúar 2023. Frá vinstri Oddfellowarnir Steindór Gunnlaugsson, Ólöf S. Pálsdóttir og Hlöðver Kjartansson, Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra, Oddfellowarnir Heiðar Friðjónsson, Ingjaldur Ásvaldsson og Júlíus Rafnsson, Almar Guðmundsson bæjarstjóri og Björg Fenger bæjarfulltrúi.

Deiliskipulag svæðisins var samþykkt í júlí 2023 og er þetta jafnframt í fyrsta skipti sem unnið er að deiliskipulagi samhliða friðlýsingu. Deiliskipulagið tryggir sameiginlega sýn Garðabæjar, Umhverfisstofnunar og Styrktar- og líknarsjóðs um farsæla þróun og uppbyggingu á svæðinu.


Urriðakotshraun liggur á milli Vífilstaðahlíðar og Urriðavallar. Markmið stofnunar fólkvangsins er að festa Urriðakotshraun og nánasta umhverfi þess í Urriðvatnsdölum í sessi sem aðlaðandi útivistarsvæði, með öflugu stígakerfi og aðstöðu til golfiðkunar samhliða vernd einstakrar náttúru, menningarminja og landslags. Friðlýsingin og fyrirhuguð stækkun Urriðavallar er í samræmi við náttúruverndarlög, sem heimila friðlýsingu landsvæða til útivistar og almenningsnota sem fólkvang. Þekktasta dæmi þess er skíðasvæðið í fólkvanginum í Bláfjöllum.


Eitt höfuðmarkmið Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa er að vinna að aukinni lýðheilsu meðal landsmanna. Því fellur það vel að markmiðum landeiganda að afhenda endurgjaldslaust hundruð hektara lands í jaðri höfuðborgarsvæðisins til útivistar öllum almenningi. Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowa leggur fram land til friðlýsingar. Sjóðurinn á hluta af landi Selgjár, sem var ásamt Búrfelli og Búrfellsgjá friðlýst sem náttúruvætti í júní 2020 og kom árið 2014 að friðlýsingu Vífilstaðahrauns og Maríuhella.

1 view0 comments
bottom of page