top of page
Gongustigur-Og-Golf (1).jpg

Skipulag útivistarsvæðis í Urriðavatnsdölum

Nýtt deiliskipulag fyrir útivistarsvæði í Garðabæ

Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowa og Garðabær vinna að því í sameiningu að skipuleggja einstakt útivistarsvæði í Urriðavatnsdölum í Garðabæ, en landsvæðið er í eigu sjóðsins. Sameiginlegur vilji er fyrir því að stefna að því að friðlýsa Urriðakotshraun í þessari skipulagsvinnu sem fólkvang, en það er hluti Urriðavatnsdala.

Með tillögu að nýju deiliskipulagi er verið að festa Urriðavatnsdali í Garðabæ og nánasta umhverfi þeirra í sessi sem fjölbreytt og aðlaðandi útivistarsvæði. Til stendur að friðlýsa Urriðakotshraun sem fólkvang samhliða deiliskipulagsvinnunni og stuðla þannig að vernd einstakrar náttúru, menningarminja og landslags. Umhverfisstofnun vinnur að friðlýsingu hraunsins í samvinnu við landeiganda og Garðabæ.

Urriðakotshraun liggur milli Urriðaallar og Heiðmerkur og er hluti af Búrfellshrauni sem liggur frá Búrfelli til sjávar. 

Búrfellshraun 2019-05-24-008.jpg
Skýringartextar deiliskipulagssvæði.jpg

Deiliskipulagssvæðið (rauða brotalínan). Sá hluti þess sem til stendur að friðlýsa sem fólkvang er í Urriðakotshrauni (svarta brotalínan)

20190603_170411.jpg

​Hvað felst í því að friðlýsa fólkvang?

Samkvæmt náttúruverndarlögum er heimilt að friðlýsa landsvæði til útivistar og almenningsnota sem fólkvang. Skal verndun svæðisins miða að því að auðvelda almenningi aðgang að náttúru og tengdum menningarminjum í nánd við þéttbýli til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu.

 

Einn þekktasti fólkvangurinn með aðstöðu til útivistar er í Bláfjöllum, þar sem stærsta skíðasvæði landsins er að finna.

Margar fallegar hraunmyndanir er að finna á svæðinu sem fyrirhugað er að friðlýsa sem fólkvang.

Ný nálgun skipulags- og friðlýsingarferlis

Meira en áratugur er liðinn frá því að umræða hófst á vettvangi Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowreglunnar (StLO), sem er eigandi landsins, um að þróa Urriðavatnsdali sem fjölbreytt útivistarsvæði samhliða vernd einstakra menningar- og náttúruminja. Mikil undirbúningsvinna hefur átt sér stað síðan þá, í samvinnu við nefndir og ráð Garðabæjar og hlutaðeigandi opinberar stofnanir.

Deiliskipulag. Sú leið er farin að vinna nýtt deiliskipulag fyrir Urriðavatnsdali samhliða friðlýsingu fólkvangs í Urriðakotshrauni ásamt stjórnunar- og verndaráætlun. Þannig er hægt að tryggja samræmi í stefnu og aðgerðum á svæðinu. Skipulagslýsingin fyrir deiliskipulagið var kynnt fyrir umsagnaraðilum og almenningi í október og nóvember 2020. Gafst þá kostur á að koma með athugasemdir og ábendingar sem verða hafðar til hliðsjónar við mótun deiliskipulagstillögunnar.

 

Vinnslutillaga deiliskipulagsins fer síðan sams konar kynningarferli í byrjun árs 2021 og að því loknu verður sjálf tillagan að nýju deiliskipulagi auglýst og frestur gefinn til að skila inn athugasemdum.

20190603_174449.jpg
Lauf IMG_3181.JPG

Framtíðarsýn og stefnumörkun Oddfellowa

Framtíðarsýn Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa um verndun og nýtingu svæðisins var unnin í samráði við Garðabæ. Það er sameiginlegur vilji sjóðsins og Garðabæjar að þar verði tryggt samspil útivistar og viðhalds þeirra náttúru- og menningarminja sem einkenna þetta einstaka svæði og gefa því sérstöðu.   

 

Sýn sjóðsins um Urriðavatnsdali er að

Urriðavatnsdalir verði aðlaðandi útivistarsvæði, þar sem útivist og fræðsla fari saman við vernd einstakrar náttúru, menningarminja og landslags. Urriðakotshraun verði friðlýst sem fólkvangur.

Þar verði gott aðgengi fyrir almenning, öflugt stígakerfi með góðum tengingum við nærliggjandi svæði, vönduð fræðsluskilti, aðstaða til umhverfisfræðslu og aðstaða til golfiðkunar á heimsmælikvarða.

Fyrsti fólkvangurinn hér á landi í einkaeigu

Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowreglunnar er eigandi landsins. Urriðakotshraun yrði fyrsti friðlýsti fólkvangurinn hér á landi í einkaeigu. Eignarhaldið breytir þó engu um þau markmið Oddfellowa að svæðið verði aðgengilegt öllum almenningi um alla framtíð til að njóta útivistar.

Hópur félaga í Oddfellowreglunni keypti jörðina Urriðakot árið 1946 og gaf hana Styrktar- og líknarsjóði Oddfellowreglunnar (StLO) árið 1957. Landareignin nær m.a. yfir helming Urriðavatns, Kauptún, Urriðaholt, Urriðavatnsdali, Urriðakotshraun og hluta Selgjár (sem nýlega var friðlýst ásamt Búrfellsgjá og Búrfelli). 

Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowa nýtir tekjur af eignarhaldi sínu á landi Urriðakots til fjölbreyttra góðgerðamála. 

Horft yfir hluta svæðisins sem fyrirhugað er að friðlýsa sem fólkvang. Göngustígur liggur eftir svæðinu.

1054599.jpg
20200826_121444.jpg

Vinnan við  friðlýsingu fólkvangsins

Samráðshópur vegna friðlýsingar Urriðakotshrauns sem fólkvangs hóf störf í maí 2019. Hópurinn starfar undir stjórn Umhverfisstofnunar en í honum sitja fulltrúar landnýtingarnefndar Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa, Garðabæjar og umhverfis- og auðlindaráðuneytis. 

Umhverfisstofnun kynnti áform um friðlýsingu fólkvangs í Urriðakotshrauni í lok september 2020. Frestur til að skila inn athugasemdum til Umhverfisstofnunar var til 4. desember 2020. Í framhaldinu vinna fulltrúar Umhverfisstofnunar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, landeigenda og Garðabæjar drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir rétthafa lands og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Fyrirhuguð friðlýsing mun að lokum verða auglýst opinberlega í þrjá mánuði og er öllum gefinn kostur á gera athugasemdir við tillöguna.

Gert er ráð fyrir að þetta ferli allt standi fram á vorið 2021.

Urriðakotshraun - hinn nýi fólkvangur í Garðabæ

Urriðakotshraun liggur á milli Heiðmerkurvegar og Urriðavallar og afmarkast af Maríuhellum í vestri og Selgjá í austri. Í aðalskipulagi Garðabæjar 2016-2030 er stefnt að friðlýsingu þess sem fólkvangs. Í núverandi mynd er þetta svæði fremur óaðgengilegt og lítt þekkt en með breytingunum tengist það Heiðmörk og því víðfeðma göngu- og reiðstígasvæði sem liggur um upplönd Garðabæjar.

Urriðakotshraun er hluti af Búrfellshrauni, sem liggur frá Búrfelli til sjávar. Vestur af Maríuhellum kallast hraunið Vífilsstaðahraun en austan við liggja Selgjá, Búrfellsgjá og Búrfell, sem nýbúið er að friðlýsa. Allt er svæðið svo hluti af Græna treflinum svokallaða, sem sveigist utan um höfuðborgarsvæðið frá Kaldárbotnum í suðri að Mógilsá í norðri.

Allt svæðið að Heiðmörk kallast Urriðavatnsdalir, en Urriðakotshraun liggur milli golfvallarins og Heiðmerkur. 

Búrfellshraun 2019-06-15-346-minni útgáf
Búrfellshraun 2019-06-15-335-minni útgáf

Nýjar golfbrautir samhliða bættu aðgengi almennings

Samkvæmt fyrirliggjandi hugmyndum, sem verða mótaðar nánar í þeirri skipulagsvinnu sem er framundan, er fyrirhugað að leggja þrjár nýjar golfbrautir sem verða hluti af Urriðavelli á grónum hraunflötum í Urriðakotshrauni, svokölluðu Flatahrauni. Golfbrautirnar þrjár yrðu lagðar í einfaldri röð framhjá og innan við hraunmyndanirnar. Um leið skapast gott rými fyrir endurbættan útivistarstíg samhliða golfbrautunum. Þessar framkvæmdir verða hluti af stækkun Urriðavallar úr 18 í 27 holur.

 

Áhersla er lögð á góðar aðstæður til almennrar útivistar á svæðinu m.a. með  því að koma fyrir útivistarstígum með tengingum við nærliggjandi svæði. Með fyrirhuguðum framkvæmdum opnast fallegt útivistar- og göngusvæði meðfram tígulegum hraunjöðrum.

 

Verndun hraunsins og sérstaklega hraunjaðarins er forgangsmál í öllum þeim framkvæmdum sem fyrirhugað er að ráðast í.

Stækkun Urriðavallar á öðrum nálægum svæðum

Tvær aðrar brautir í þessari stækkun yrðu syðst á svæði sem þegar hefur verið raskað með línuvegi og raflínum sem ganga þvert í gegnum það. Þá er gert ráð fyrir fjórum nýjum golfbrautum í dalverpinu sunnan við núverandi golfvöll. Sá hluti fellur innan núverandi íþróttasvæðis Urriðavallar. Með þessu móti stækkar Urriðavöllur um 9 holur.

Í umsögn sinni um þessi áform segir Umhverfisstofnun meðal annars: „Samkvæmt 52. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013 er heimilt að friðlýsa landsvæði til útivistar og almenningsnota sem fólkvang. Skal verndun svæðisins miða að því að auðvelda almenningi aðgang að náttúru og tengdum menningarminjum í nánd við þéttbýli til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu. Urriðakotshraun fellur undir ákvæði 61. gr. laga um náttúruvernd um sérstaka vernd og forðast ber að raska jarðminjum nema brýna nauðsyn beri til. Umhverfisstofnun telur að sú tillaga að uppbyggingu golfvallar sem hér um ræðir í Urriðakotshrauni bendi til óverulegrar röskunar á hrauninu og geti fallið undir starfsemi fólkvangs sé þess gætt að aðgengi almennings um svæðið sé ekki skert og að hrauninu verði sem minnst raskað

Horft yfir raskaða svæðið við háspennulínurnar þar sem áformað er að hafa tvær nýjar golfbrautir.

Búrfellshraun 2019-06-15-337-minni útgáf
Hluti_af_gönguleiðakortinu.jpg

Aðgengilegt kort af örnefnum og gönguleiðum

Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowa hefur gefið út kort af örnefnum og göngu- og reiðleiðum í upplandi Garðabæjar. Kortið nær yfir svæði frá Urriðaholti og Vífilssstöðum til Búrfells og Helgafells.

 

Mikið úrval er af gönguleiðum á þessu svæði, en samfellt kort af þeim hefur ekki verið til áður. Prentuð útgáfa kortsins fæst ókeypis í afgreiðslu Náttúrufræðistofnunar Íslands, í þjónustuveri Garðabæjar og golfskála Odds á Urriðavelli. Nálgast má rafræn útgáfu kortsins með því að smella á myndina hér til hliðar.


Fyrir snjalltæki er kortið fáanlegt ókeypis Avenza appinu (sem er líka ókeypis). Kortið finnst í kortaverslun Avenza með því að leita eftir „Örnefni og útivist í upplandi Garðabæjar.“ Með kortinu í símanum sér notandinn hvar hann er staddur hverju sinni.

Flogið yfir fyrirhugaðan friðlýstan fólkvang

Hafa samband
bottom of page